Uppljóstrun starfsmanna
Tilkynningar sem varða starfsemi Klettabæjar
Samkvæmt lögum nr. 40/2020, um vernd uppljóstrara, er starfsmanni heimilt að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum sem hann býr yfir í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda þeirra. Lögin hafa það að markmiði að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og draga þannig úr slíku hátterni. Um leið miða ákvæði laganna að því að tjáningafrelsi ríki um slíka háttsemi.
Skilgreiningar
Starfsemi vinnuveitanda:
Áskilnaðurinn um háttsemi í starfsemi vinnuveitanda er í lögunum skýrður með rúmum hætti þannig að þar undir fellur sérhver háttsemi sem starfsmaður verður áskynja um í starfi sínu.
Góð trú:
Krafan um góða trú er grundvallarskilyrði fyrir þeirri vernd sem lögin mæla fyrir um. Með góðri trú er átt við að starfsmaður hafi réttmætar ástæður til að telja gögnin eða upplýsingarnar sem miðlað er vera réttar, það sé í þágu almennings að miðla þeim og að hann eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir. Af þessu leiðir að starfsmenn sem hyggjast miðla upplýsingum í samræmi við ákvæði laganna verða að ganga úr skugga um það eins og frekast er unnt að þær séu sannar áður en til miðlunar kemur. Starfsmenn sem miðla vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum eða upplýsingum um smávægileg frávik í þeim tilgangi að koma höggi á vinnuveitendur sína eða aðra njóta því ekki verndar samkvæmt lögunum.
Sama gildir um starfsmenn sem leka upplýsingum út fyrir vinnustaðinn án þess að hafa fyrst viðhaft innri uppljóstrun eða gengið úr skugga um að þær lúti að háttsemi sem getur varðað fangelsisrefsingu eða miðlunin sé að öðru leyti í þágu brýnna almannahagsmuna. Rétt er að taka fram að þar sem skilyrðið er einungis um góða trú kemur það ekki alfarið í veg fyrir að sá sem miðlar upplýsingum samkvæmt lögunum njóti verndar þótt síðar komi í ljós að upplýsingarnar reynist rangar. Áreiðanleiki upplýsinga er þó meðal þess sem máli skiptir við mat á því hvort starfsmaður geti talist hafa verið í góðri trú, t.d. ef upplýsingarnar voru bersýnilega rangar.
Ámælisverð háttsemi:
Með ámælisverðri háttsemi er átt við hátterni sem stefnir almannahagsmunum í hættu, t.d. hátterni sem ógnar heilsu eða öryggi fólks eða umhverfi, án þess að um sé að ræða augljóst brot á lögum eða reglum.
Innri og ytri uppljóstrun
Innri uppljóstrun:
Innri uppljóstrun felur í sér að þrátt fyrir fyrirmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu er þeim starfsmanni sem býr yfir upplýsingum eða gögnum um brot á lögum eða annarri ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda síns heimilt að miðla slíkum upplýsingum og gögnum í góðri trú til aðila sem stuðlað getur að því að látið verði af eða brugðist við hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi.
Tilkynningin getur t.a.m. verið til næsta yfirmanns starfsmanns og er móttakanda upplýsinganna eða gagnanna skylt að stuðla að því að látið verði af hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi eða brugðist á annan hátt við henni. Þar sem atvik og aðstæður geta verið fjölbreytilegar er ófært að mæla með nákvæmari hætti fyrir en hér er gert til hvaða aðila miðlunin getur verið. Kjarnaatriðið er þó einfalt, þ.e. miðlunin skal vera til aðila sem stuðlað getur að því að látið verði af eða brugðist við háttseminni, án þess að upplýsingarnar eða gögnin verði gerð opinber, eins og aftur á móti á við um ytri uppljóstrun.
Miðlun á grundvelli innri uppljóstrunar getur einnig verið til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, t.d. Vinnueftirlits ríkisins.
Móttakandi upplýsinganna skal greina starfsmanninum frá því hvort upplýsingarnar hafi orðið tilefni til athafna og þá hverra, að jafnaði innan mánaðar. Verði umtalsverðar tafir á afgreiðslu mála skal greina starfsmanninum frá því.
Ytri uppljóstrun:
Ytri uppljóstrun felur í sér að starfsmanni sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum á grundvelli innri uppljóstrunar, án þess að það hafi leitt til fullnægjandi viðbragða, er heimilt í góðri trú að miðla upplýsingum eða gögnum til utanaðkomandi aðila, þar á meðal fjölmiðla, svo fremi sem starfsmaðurinn hefur réttmæta ástæðu til að ætla að um háttsemi sé að ræða sem getur varðað fangelsisrefsingu.
Slík miðlun telst einnig heimil í algjörum undantekningartilvikum þegar miðlun á grundvelli innri uppljóstrunar kemur af gildum ástæðum ekki til greina. Skilyrðið í slíkum aðstæðum er að miðlunin teljist í þágu svo brýnna almannahagsmuna að hagsmunir vinnuveitanda eða annarra verða að víkja fyrir hagsmunum af því að upplýsingum sé miðlað til utanaðkomandi aðila, svo sem til að vernda:
1. öryggi ríkisins eða hagsmuni ríkisins á sviði varnarmála,
2. efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins,
3. heilsu manna,
4. umhverfið.
Almennt er því starfsmanni óheimilt að grípa til ytri uppljóstrunar nema innri uppljóstrun hafi verið fullreynd og ekki leitt til árangurs. Ytri uppljóstrun er því í raun neyðarúrræði þar sem fram þarf að hafa farið hagsmunamat á því hvort vegi þyngra, hagsmunir almennings af því að fá vitneskju eða tjón þess aðila er upplýsingar varða.
Nafnleynd og verndarráðstafanir
Móttakandi upplýsinga eða gagna skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema hinn síðarnefndi veiti afdráttarlaust samþykki sitt fyrir því að leynd sé aflétt.
Miðlun upplýsinga eða gagna að fullnægðum skilyrðum laganna telst ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu sem starfsmaðurinn er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík miðlun leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á viðkomandi. Þá nýtur starfsmaður verndar samkvæmt ákvæðum laganna eftir að hlutverki hans lýkur.
Vinnsla mála í kjölfar uppljóstrunar
Hér vísast í verklagsreglur Klettabæjar um vinnslu mála í kjölfar uppljóstrunar.
Öðrum en starfsmönnum er heimilt að senda inn ábendingar
Aðrir en starfsmenn Klettabæjar geta sent inn ábendingar um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Klettabæjar. Þeir einstaklingar njóta aftur á móti ekki verndar samkvæmt lögum um vernd uppljóstrara en þeim er aftur á móti heimilt að senda inn ábendingar.
Vilt þú koma ábendingu á framfæri?
Sendu okkur tölvupóst og við svörum þér eins fljótt og við getum.